Eftir sjö kvikmyndir í fullri lengd eru bæði stílbrögð og þemu leikstjórans Wes Anderson orðin ansi skýr. Í raun og veru eru þau svo skýr að það er bæði auðvelt og vinsælt að gera skopstælingar og eftirapanir af kvikmyndaheimi hans. Bandaríska heimasíðan Slate gerði nýlega „Wes Anderson-bingó-spjöld“, í hvert sinn sem klisjukennd atriði birtust á skjánum átti að fylla út reiti á bingóspjaldinu, og nýlega gerði Saturday Night Live innslag sem kannaði hvernig hryllingsmynd eftir Wes Anderson gæti litið út. Þegar einungis er litið á þá hluti sem Anderson gerir eins í mynd eftir mynd er auðvelt að missa af þeim breytingum sem eiga sér stað frá einni kvikmynd til annarrar og þeirri þróun sem hefur átt sér stað í myndum hans.
Fyrri myndir Anderson hafa allar endað á einhvers konar uppgjöri. Fjölskyldur koma saman – gömul, slitin tengsl lagast og ný skapast. Hlutirnir eru ekki alltaf fullkomnir, en það er greinilegt að þeir munu batna. Það er því ákveðið sjokk að upplifa nýjustu mynd Andersons, The Grand Budapest Hotel, sem er bæði fyrsta mynd hans þar sem einhvers konar pólitísk heimsmynd brýst inn í ýktan sagnaheiminn og fyrsta mynd hans sem endar á tóni sem vísar till aukinnar eyðileggingar og niðurrifs í stað aukinnar samheldni eða uppbyggingar.
Þetta er örstutt útgáfa af umfjöllun um Wes Anderson og The Grand Budapest Hotel. Lestu hana í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.