Seðlabanki Íslands og Íbúðalánasjóður eiga 2.360 íbúðir um land allt. Þar af á Íbúðalánasjóður bróðurpartinn, eða 2.121 samkvæmt mánaðarskýrslu sjóðsins fyrir marsmánuð sem birt var í gær. Seðlabanki Íslands, í gegnum félagið Hildu sem Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) á, heldur enn á 350 fasteignum, þar af 250 íbúðum. Um 100 fasteignir sem félagið á teljast til atvinnuhúsnæðis.
Seðlabankinn og Íbúðalánasjóður hafa bæði beitt svipuðum aðferðum við sölu á eignum, það er að setja eignirnar smátt og smátt út á markað og freista þess þannig að fá sem hæst verð fyrir eignirnar. Fasteignasölur hafa séð um að selja eignirnar, í mörgum tilvikum fasteignasalan Miklaborg og fasteignasalan Eignamiðlun.
ESÍ tók við um 550 fasteignum sem voru í eigu Dróma þegar samningar náðust á milli ESÍ, Dróma og Arion banka um yfirtöku ESÍ á ákveðnum eignum og skuldum Dróma og uppgjöri á kröfu Arion banka á Dróma. Samningarnir náðust um síðustu áramót. Sé mið tekið af þessu hefur Seðlabankinn nú þegar selt um 200 fasteignir frá því að hann tók við eignunum eftir að hafa gengið að veðum sínum.
Þetta er örstutt brot úr fréttaskýringu Kjarnans um fasteignir í eigu hins opinbera. Lestu hana í heild sinni hér.