Samkvæmt heimildum Kjarnans var Sigríður Hagalín Björnsdóttir varafréttastjóri RÚV boðuð á fund Magnúsar Geirs Þórðarsonar útvarpsstjóra í morgun. Kjarninn greindi frá því á mánudaginn að Sigríður og þrír aðrir umsækjendur um fréttastjórastöðuna á RÚV kæmu einir til álita í starfið eftir að umsækjendahópurinn var skorinn niður.
Hinir sem komu til álita voru Svavar Halldórsson fyrrverandi fréttamaður hjá RÚV, Rakel Þorbergsdóttir varafréttastjóri og Ingólfur Bjarni Sigfússon yfirmaður nýmiðladeildar RÚV. Heimildir Kjarnans herma að aðrir umsækjendur um varafréttastöðuna hafi ekki verið boðaðir á fund útvarpsstjóra í morgun. Flest virðist því benda til þess að Sigríður Hagalín Björnsdóttir verði næsti fréttastjóri RÚV.
Þá herma heimildir Kjarnans að Ragnhildur Thorlacius hafi sömuleiðis verið boðuð á fund útvarpsstjóra í morgun, en hún var á meðal þrettán umsækjenda um dagskrárstjórastöðuna á Rás 2.
Boðað hefur verið til starfsmannafundar hjá RÚV klukkan 14:30, þar sem formlega verður tilkynn hverjir hreppa framkvæmdastjórastöðurnar sem Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri auglýsti lausar til umsóknar á dögunum.