Snjallsímaframleiðendur sendu frá sér 327,6 milljón síma um allan heim á þriðja ársfjórðungi ársins 2014. Það er aukning um 25,2 prósent miðað við þriðja ársfjórðung í fyrra, samkvæmt gögnum IDC. Sala snjallsíma hefur einnig aukist á þessu ári. Merkja mátti 8,7 prósent aukningu milli annars og þriðja ársfjórðungs.
Blikur höfðu verið á lofti um að snjallsímamarkaðurinn væri í hnignun undanfarna mánuði. Samkvæmt þessum tölum er það fjarri því að vera raunin. The Next Web greinir frá.
Enn fremur bætist nýtt fyrirtæki á lista stærstu fimm. Það er hið kínverska Xiaomi sem skipar sér í þriðja sætið á þriðja ársfjórðungi. Xiaomi dreifði 17,3 milljónum eintaka af snjallsímum sínum. Þeirra vinsælasta vara er Mi4-síminn sem settur var á markað í ágúst.
Android-símar Xiaomi eru vinsælastir í austurlöndum fjær en sérfræðingar segja næstu tækifæri fyrirtækisins liggja í mörkuðum í Evrópu og víðar í Asíu. Þar eru hins vegar fyrir sterk merki sem gætu reynst fyrirtækinu erfitt að knésetja.