Sykur og þjónusta sérfræðilækna eru þeir tveir útgjaldaliðir sem hækkuðu mest í verði á árinu 2014, samkvæmt verðbólgumælingum Hagstofu Íslands. Verð á sykri hækkaði um nærri 35% á tímabilinu, sem nær frá desember 2013 til desember 2014, og þjónusta sérfræðinganna hækkaði um ríflega 20%. Á móti duglegum hækkunum ýmissa útgjaldaliða þá lækkaði verð fjölmargra vara og þjónustna á liðnu ári. Verðkannannir á „sveppum, rótarhnýði og laukum“ sýndu þannig fram á tæplega 20% verðlækkun milli ára auk þess sem raftæki lækkuðu töluvert í verði.
Í hverjum mánuði reiknar hagstofan breytingar á vísitölu neysluverðs. Vísitalan skiptist í tólf flokka, svokallaðar undirvísitölur, sem síðan skiptast aftur í undir-undirvísitölur. Samtals kannar Hagstofan mánaðarlega verðbreytingar á um þriðja hundruð útgjaldaliða, allt frá kostnaði við matarinnkaup og ferðalög til verðbreytinga hjá hárgreiðslustofum og heilsuræktarstöðvum. Dæmi um slíkar undir-undirvísitölur eru útgjaldaliðirnir „Sykur“ og „Sveppir, rótarhnýði og laukar“. Þessar matvörur eru hluti af matarkörfunni sem myndar undirvísitöluna „Matur og drykkjarvörur“.
Undirvísitölur verðbólgunnar - Hækkanir & lækkanir 2014 |Create infographics
Á myndinni hér að ofan má sjá hvernig undirvísitölurnar tólf breyttust á árinu 2014. Með því að smella á „hlutfallsleg skipting“ er jafnframt hægt að sjá vægi þessara liða í útreikningi á vísitölu neysluverðs. Matur og drykkjarvara lækkuðu í verði um tæpt 1% en sú undirvísitala myndar um 14,5% af vísitölu neysluverðs. Langstærsti liður endanlegu vísitölunnar er „Húsnæði, hiti og rafmagn“ sem á síðustu tólf mánuðum hefur hækkað um 4,44%. Þessi útgjöld vega þungt, samtals um 28%.
Eins og mörgum er kunnugt þá er tólf mánaða breyting á vísitölu neysluverðs hin alræmda verðbólga. Hún mældist í desember 0,8%. Með öðrum orðum þá hefur verðlag í landinu, eins og það mælist í könnunum Hagstofunnar, almennt hækkað um 0,8% á síðustu tólf mánuðum. Fara þarf allt aftur til ársins 1998 til þess að finna tímabil þar sem verðbólgan fór undir 1%.
Innanlandsflug dýrara – Utanlandsflug ódýrara
Þegar undir-undirvísitölurnar eru skoðaðar nánar eftir hækkunum og lækkunum á tímabilinu stilla nokkrir liðir tengdir heilbrigðisþjónustu sér ofarlega á lista yfir mestu verðhækkanirnar. Undirvísitalan „Heilsa“ hækkaði um tæp 6% á árinu en nokkrar undir-undirvísitölur Heilsunnar hækkuðu mikið, eins og sjá má á myndinni hér að neðan. Þjónusta sérfræðinga var 23,3% dýrari en hún var í desember 2013 og þjónusta heimilislækna hækkaði í verði um 19,5%.
Vörur og þjónusta sem hækkuðu mest á árinu 2014 |Create infographics
Flugfargjöld innanlands hækkuðu á árinu um 7,5%. Á sama tíma lækkuðu flugfargjöld til útlanda um 13,2%. Einungis raftæki og fyrrnefndir sveppir, rótarhnýði og laukar lækkuðu meira í verði á árinu sem leið. Sjónvörp, útvörp og myndspilarar lækkuðu um 17,4% milli desembermánaða 2013 og 2014. Gera má ráð fyrir að þær lækkanir hafi verið framkvæmdar í aðdraganda afnáms vörugjalda nú um áramótin en raftæki af ýmsu tagi eru áberandi á listanum yfir þær vörur og þjónustu sem lækkuðu mest. Af þeim þrettán liðum sem lækkuðu mest í verði þá voru fimm þeirra raftæki.
Vörur og þjónusta sem lækkuðu mest á árinu 2014 |Create infographics
Kjarninn og Stofnun um fjármálalæsi hafa tekið höndum saman og munu fjalla ítarlega um heimilisfjármál samhliða þáttunum Ferð til fjár, sem sýndir verða á RÚV næstu vikur. Markmiðið: Að stuðla að betra fjármálalæsi hjá landsmönnum! Fyrsti þátturinn er á dagskrá fimmtudaginn 15. janúar. Fylgstu með á Facebook-síðu Ferð til fjár.