Innan háskólasamfélagsins er mikil gróska á sviði nýsköpunar og frumkvöðlastarfs. Í Háskólanum í Reykjavík (HR) er mikið lagt upp úr samvinnu milli nemenda í ólíkum greinum og hefur einn áfanganna það að markmiði að vinna að stofnun fyrirtækisins, búa til viðskiptaáætlun og hrinda hlutum í framkvæmd.
Hópur skipaður sex nemendum, Halldóri Guðna Traustasyni nemanda í hátækniverkfærði, Hauki Sigurgeirssyni nemanda í viðskiptafræði, Hákoni Garðari Þorvaldssyni nemanda í hátækniverkfræði, Röskvu Vigfúsdóttur nemanda í sálfræði, Svanhildi Kamillu Sigurðardóttur nemanda í lögfræði, og Mikael Ingasyni, nemanda í viðskiptafræði, hefur unnið að stofnun fyrirtækis í kringum hugmynd sem fæddist í þriggja vikna áfanga í HR. Fyrirtækið heitir Navitech og snýr að því að þróa armband fyrir sjómenn til þess að tryggja betur öryggi þeirra.
Armbandið virkar þannig að ef að sjómaður fellur fyrir borð þá gera neyðarboð frá armbandinu skipstjóra og björgunaraðilum í landi viðvart. Viðeigandi björgunaráætlanir geta þá farið strax í gang og mögulegt að sjá staðsetningu þess sem er með armbandið með GPS tækni.
Hugmyndin hefur þegar vakið athygli útgerðarfyrirtækja hér á landi og er það ætlun hópsins sem stendur að baki fyrirtækinu að markaðsetja armbandið á alþjóðavettvangi í framtíðinni en í fyrstu stendur til að þróa hugbúnaðinn og tæknina sem armbandið byggir á í samstarfi við viðskiptavini hér á landi.
Nánari upplýsingar um Navitech má sjá á vefsíðu fyrirtækisins hér.