Á uppgangsárunum fyrir hrun höfðu íslenskir athafnamenn, og sérstaklega bankamenn, uppgötvað að þeir væru merkilegri og klárari en allir aðrir í heiminum. Þeir höfðu auðvitað rangt fyrir sér, eins og stærsta efnahagshrun miðað við höfðatölu vottar. Á þessum árum tókst þeim hins vegar að hlaða í nokkra gjörninga sem á þeim tíma hafa ugglaust þótt nýmóðins og til merkis um hvað íslenska elítan væri miklir heimsborgarar. Þegar þeir eru skoðaðir í baksýnisspeglinum eru þessar yfigengilegu góðærisathafnir þó í besta falli hlægilegar. Og pínulítið sorglegar.
5. Maraþonútrás
Bjarni Ármannsson, fyrrum bankastjóri Glitnis, er mikill hlaupari og hefur hlaupið nokkur maraþon. Á meðan hann stýrði bankanum var ákveðið að Glitnir yrði aðalstyrktaraðili árlegs Reykjavíkurmaraþons. Frá árinu 2006 og fram til dagsins í dag hefur hlaupið því verið kennt við Glinti og síðar Íslandsbanka, sem var byggður á rústum hans.
Í anda fyrirhruns-áranna ákvað Glitnir að fara með maraþon-sponsið í útrás eins og annað. Bankinn varð aðalstyrktaraðili Oslóarmaraþonsins árið 2007, en hann var þá að gera sig nokkuð fyrirferðamikinn í norsku fjármálalífi. Ári seinna var leikurinn endurtekinn auk þess sem Kaupmannahafnarmaraþonið bættist í styrktaraðilasarpinn. Glitnir var þá aðalstyrktaraðili maraþons í þremur höfuðborgum á Norðurlöndum. Rúmum fjórum mánuðum eftir að það fór fram hrundi bankinn. Engin útlensk maraþon hafa verið kennd við íslenska fjármálastofnun síðan þá.
Lestu topp fimm listann í heild sinni í nýjasta Kjarnanum hér.