Einkaneysla skiptir Íslendinga miklu máli. Við viljum hafa nóg af peningum í buddunni eftir að hafa greitt til samneyslunnar til að kaupa fullt af fínu dóti. Því hærri sem ráðstöfunartekjurnar eru í byrjun mánaðar, því hamingjusamari virðumst við vera. Og því lægri sem þær verða, því pirraðri verðum við. Það sést á fjölda þeirra sem nenna að taka þátt í mótmælum þegar þau snúast um peninga. Hann er mörg hundruð sinnum meiri en þegar verið er að mótmæla stríðum í fjarlægum löndum eða eyðingu jarðar af mannavöldum.
Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) tekur árlega saman tölur um í hvaða ríkjum hæstu ráðstöfunartekjurnar eru. Hér fyrir neðan er nýjasta yfirlit stofnunarinnar, en það sýnir stöðu ríkjanna í árslok 2012. Þess má geta að Ísland kemst ekki á topp 30, enda lækkuðu ráðstöfunartekjur okkar mest allra aðildarríkja OECD á árunum 2007 til 2010. Það mun taka tíma, og útsjónarsemi, að laga þá stöðu.
5. Sviss
Sviss er þekkt fyrir osta,alpa, klukkur og nánast bíræfna bankaleynd. Staða þeirra sem hlutlausasta ríkis jarðarinnar gerir þeim líka kleift að haga málum sínum öðruvísi en aðrir. Sviss notar þá stöðu til dæmis til að lokka til sín höfuðstöðvar stórra fyrirtækja með afar hagstæðu skattaumhverfi. Meðalráðstöfunartekjur Svisslendinga, eftir að þeir hafa greitt skatta og gjöld, eru tæplega 3,9 milljónir króna á ári. Fyrir skatta og gjöld þéna þeir rúmlega 6,4 milljónir króna á ári.
4. Ástralía
Margir eru fastir í þeirri kredduhugsun að glæpamenn séu ólíklegir til að verða nýtir þjóðfélagsþegnar eftir að afplánun þeirra lýkur. Fyrrum fanganýlendan Ástralía afsannar þá kenningu með stæl. Miklar náttúruauðlindir hafa vissulega hjálpað til en Ástralir eru auk þess leiðandi í fjarskiptum, fjármálaheiminum og í allskyns framleiðslu. Hver og einn Ástrali vinnur sér inn að meðaltali um sex milljónir króna. Eftir skatta skilur sú vinna eftir rúmar fjórar milljónir króna í veskjum þeirra að meðaltali.
3. Lúxemborg
Lúxemborg er í hjarta Evrópu, með landamæri að öllum löndum meginlandsins sem skipta mestu máli, er alþjóðleg fjármálamiðstöð og hýsir nokkrar mikilvægustu stofnanir Evrópusambandsins, eins og Evrópudómstólinn. Það hjálpar auðvitað til við að pumpa upp fjárhaginn að Lúxemborg er eitt umfangsmesta skattaskjól veraldar. Íbúarnir hafa þó ágætt upp úr þessu öllu saman. Hver og einn íbúi þénar að meðaltali um 6,4 milljónir króna á ári fyrir skatta og gjöld og fær rúmlega fjórar milljónir króna eftir greiðslu þeirra til að eyða að vild.
2. Írland
Írland varð, ásamt Íslandi, auglýsingaspjaldsdrengur (e. poster-boy) fjármálalegs óhofs og framúrkeyslu þegar alþjóðlega bankahrunið skall á haustið 2008. Landið var ítrekað kallað körfudæmi (e. basket-case) og óttast var mjög um nánustu framtíð þess. Það virðist hafa verið óþarfi. Lágskattastefna Íranna virðist hafa dregið þá mjög fljótt aftur í gang og ráðstöfunartekjur þeirra eru nú þær næst hæstu í heiminum að meðaltali á mann. Hver og einn þeirra fær um 4,6 milljónir króna í veskið á ári til að eyða í það sem honum sýnist.
1. Bandaríkin
Auðvitað er land hinna huguðu og frjálsu í fyrsta sæti. Bandaríkin eru enda valdamesta ríki heims og heimili hins heilaga draums um að hver sé sinnar eigin gæfu smiður. Í bandarísku útgáfunni snýst gæfan reyndar nánast einvörðungu um að græða sem mesta peninga. Og það er heldur betur að ganga eftir. Þótt misskiptingin sé vissulega mikil þar í landi þá fær hver og einn Bandaríkjamaður á vinnumarkaði að meðaltali um 4,7 milljónir króna árlega í veskið til að ráðstafa að vild eftir greiðslur skatta og gjalda.