Jólahátíðin er sá tími árs þegar flestir fá tækifæri til að njóta langþráðar stundar með fjölskyldunni. Eftir allt hangikjötsátið og nammigúffið getur verið gott að koma allri fjölskyldunni fyrir í sófanum og setja skemmtilega fjölskyldumynd í tækið. Kjarninn hafði samband við Katrínu Jakobsdóttur, alþingismann og formann Vinstri grænna, og bað hana um að velja fimm uppáhalds jólamyndirnar sínar.
5. Þetta er yndislegt líf (It's a Wonderful Life) - 1946
„Bestu jólamyndir sögunnar eru samkvæmt flestum gagnrýnendum frá fimmta áratug tuttugustu aldar og það á við um þessa frægu mynd með James Stewart í aðalhlutverki. Kannski er þetta áratugur jólamyndanna (Miracle on 34th Street var gerð 1947) áður en kapítalisminn náði tökum á jólunum, seinni heimsstyrjöldin nýbúin og kalda stríðið enn ekki hafið. Þetta er þéttur pakki af frið og kærleika.“
4. Die Hard - 1988
„Ég verð að nefna Die Hard (og raunar líka Die Hard II frá 1990), báðar gerast um jól og batna þótt ótrúlegt megi virðast með árunum. Sú fyrri er sérstaklega vel heppnuð og vel skrifuð spennumynd. Svo finnst mér alveg óborganlegt þegar Bruce Willis sendir fax með fingraförum á flugvellinum í númer tvö, það hefur svo ótrúlega margt breyst!“
3. Fanny og Alexander - 1982
„Fanny og Alexander eftir Ingmar Bergman frá 1982 er líklega ein fremsta kvikmynd seinustu áratuga og gerist að hluta á jólum, líka fjölskyldusaga þó að sannarlega sé hún áleitin og erfið á köflum en það skiptist líka á skin og skúrir í fjölskyldum, stundum líka fyrir jól.“
2. Jólasaga (Un conte de noël) - 2008
„Jólasaga frá 2008 er svört kómedía með jólaþema og Catherine Deneuve í lykilhlutverki, ekta fjölskyldudrama til að horfa á fyrir jól (og prísa sig um leið sæla með eigin fjölskyldu!).“
1. Jóladraumur Prúðuleikaranna (The Muppet Christmas Carol) - 1992
„Jóladraumur Prúðuleikaranna er í miklu dálæti á mínu heimili. Jóladraumur Charles Dickens er jólasaga með stóru joði og flest gott efni er enn betra með Prúðuleikurunum! Þessi mynd er óvenju vel heppnuð með mörgum eftirminnilegum tónlistaratriðum. Við mæðginin heima reynum að horfa á hana fyrir hver jól og ég kemst alltaf í jólaskap.“