Ekki þarf að fjölyrða um þá byltingu sem orðið hefur á flestum sviðum með tilkomu netsins. Á þeim tæplega tveimur áratugum sem liðnir eru síðan ég útskrifaðist sem lögfræðingur hefur orðið grundvallarbreyting á starfsumhverfi lögfræðinga fyrir tilstuðlan netsins. Töluverður tími fór gjarnan í leit að ýmsum grundvallargögnum, í hinum og þessum bókum og heftum, og innan stjórnsýslunnar var aðgengi að til dæmis úrskurðum lítið og sama átti við um úrlausnir dómstóla í héraði. Lögfræðingar sönkuðu að sér því sem gefið var út á pappír; dómum Hæstaréttar, Stjórnartíðindum, Lögbirtingablaðinu og álitum Umboðsmanns Alþingis í hillumetravís svo það helsta sé nefnt. Af öðru fréttu menn af afspurn ef heppnin var með þeim.
Þessi staða er í dag gjörbreytt. Ýmsar upplýsingaveitur á netinu sjá nú til þess að þessi gögn séu öll við hendina og raunar í umtalsvert meiri mæli en aðgengilegt var með góðu móti fyrir nokkrum árum. Þetta aukna aðgengi að grundvallargögnum á sviði lögfræði er ekki bara til hagsbóta fyrir lögfræðinga og aðra sérfræðinga heldur er þetta að sjálfsögðu mikilvægt atriði fyrir alla sem vilja kynna sér réttarstöðu sína á hvaða sviði sem er.
Öflug upplýsingamiðlun Alþingis
Mikilvægasta upplýsingaveitan á þessu sviði er heimasíða Alþingis, www.althingi.is. Ég játa það hér með og fúslega að þetta er uppáhaldssíðan mín á netinu öllu. Á þessari síðu má finna gríðarlegt magn upplýsinga um allt það sem snýr að verkefnum Alþingis. Á síðunni eru aðgengileg lagafrumvörp síðustu áratuga sem og greinargerðir, nefndarálit, umsagnir, umræður og annað það sem tengist meðferð einstakra mála á þinginu. Þá er þarna að finna allar þær fyrirspurnir sem lagðar hafa verið fram og svör við þeim og fullbúið lagasafn. Lagasafnið geymir ekki einasta lögin sjálf heldur er þar í hverjum og einum lagabálki unnt að finna viðeigandi breytingarlög og reglugerðir sem settar hafa verið á grunni umræddra laga auk tengla á það frumvarp sem varð að umræddum lögum og svo framvegis. Þessi mikilvæga upplýsingaveita er án minnsta vafa afar þjóðhagslega hagkvæm, enda sparar hún tíma og stórfé innan stjórnsýslunnar, dómstóla og annars staðar þar sem leyst er úr málum, svo ekki sé talað um mikilvægi slíkrar upplýsingamiðlunar í lýðræðislegu þjóðfélagi. Rekstur síðunnar er Alþingi til mikils sóma.
Hæstiréttur og Umboðsmaður Alþingis
Heimasíða Hæstaréttar, www.haestirettur.is, er einnig mikilvæg upplýsingaveita, en þar er að finna alla dóma réttarins frá 1. janúar 1999. Einfalt er að leita að dómum eftir lagagreinum, efnisatriðum og með textaleit ef því er að skipta. Í upphafi hvers dóms sem birtur er á netinu er að finna stutta og hnitmiðaða samantekt um efnisatriði viðkomandi máls og niðurstöðu Hæstaréttar. Þessi nýbreytni var tekin upp þegar birting dóma á netinu hófst og gerir starfsemi réttarins mun aðgengilegri almenningi.
Umboðsmaður Alþingis heldur einnig úti öflugri heimasíðu, www.umbodsmadur.is, þar sem finna má allar úrlausnir embættisins frá upphafi. Umboðsmaður Alþingis hefur eftirlit með allri stjórnsýslu ríkisins og sveitarfélaga og því skiptir miklu máli að unnt sé með einföldum og aðgengilegum hætti að kynna sér niðurstöður hans á einstaka réttarsviðum innan stjórnsýslunnar.
Ýmsar aðrar mikilvægar upplýsingaveitur eru reknar og má þar nefna úrlausnir héraðsdómstóla landsins sem aðgengilegar eru á síðunni www.domstolar.is. Úrskurðir innan stjórnsýslunnar eru aðgengilegir á vefnum www.urskurdir.is, en sá vefur hét upphaflega www.rettarheimild.is og var settur á laggirnar árið 2001. Á vefnum birta ráðuneytin úrskurði sína og álit auk úrskurða kærunefnda og dóma Félagsdóms. Stjórnartíðindi hafa verið gefin út á netinu undanfarin ár á vefnum www.stjornartidindi.is, en þar eru birt í A-deild öll lög o.fl., reglugerðir o.fl. í B-deild og samningar við önnur ríki í C-deild. Sérstakt reglugerðasafn er einnig aðgengilegt á vefnum www.reglugerd.is. Þá er Lögbirtingablað gefið út á netinu á síðunni www.logbirtingablad.is en efnið er einungis aðgengilegt áskrifendum.
Þessar upplýsingaveitur hinna þriggja handhafa ríkisvaldsins – löggjafarvaldsins, dómsvaldsins og framkvæmdavaldsins – eru ekki eingöngu mikilvægar lögfræðingum og öðrum sérfræðingum vinnu sinnar vegna. Þær eru ekki síður mikilvægar fyrir almenning þannig að hver og einn geti hindrunarlítið kynnt sér grundvallargögn og eftir atvikum lagt sjálfstætt mat á réttarstöðu sína í einstaka tilvikum.
Pistillinn birtist fyrst í nýjustu útgáfu Kjarnans. Lestu hana hér.