Við stofnun árið 2006 var Byr sparisjóður stærsti sparisjóður landsins, en rekstur sjóðsins skilaði hagnaði upp á tæpa 2,7 milljarða króna á fyrsta rekstrarári hans. Eignir sjóðsins í árslok 2006 námu 22 prósentum af samanlögðum eignum allra sparisjóða í landinu og í lok árs 2007 voru þær um þrjátíu prósent af heildareign allra sparisjóða. Í lok árs 2007 nam eigið fé hans rúmum 53 milljörðum króna og eiginfjárhlutfallið var 40,2 prósent á sama tíma. Sterk staða sjóðsins skýrðist fyrst og fremst af 26,3 milljarða króna stofnfjáraukningu í desember 2007, þeirri mestu í sparisjóðakerfinu fyrr og síðar.
Um helmingi stofnfjáraukningarinnar var svo varið til greiðslu arðs til stofnfjáreigenda þremur mánuðum síðar. Staða sjóðsins veiktist mikið á haustmánuðum 2008, en eiginfjárhlutfall hans í árslok 2008 var komið niður í 8,3 prósent, sem er rétt yfir lögbundnu lágmarki.
Byr sparisjóður tapaði 16,5 milljörðum króna á fyrri hluta árs 2009, en heildartap sjóðsins það ár nam 38,8 milljörðum króna. Einungis virðisrýrnun útlána nam 38,2 milljörðum króna árið 2009, og í lok ársins var eigið fé sjóðsins orðið neikvætt um 22,6 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið neikvætt um 18,5 prósent. Tap sjóðsins á árunum 2008 og 2009 má helst rekja til gengistaps af fjáreignum og umtalsverðs framlags í afskriftareikning vegna virðisrýrnunar útlána.
Þetta er örstutt brot úr ítarlegri umfjöllun Kjarnans um Byr sparisjóð. Lestu Kjarnann í heild sinni hér.