Framundan er vægast sagt viðburðarríkt ár. Ólíkindatólið Donald Trump er orðinn forseti Bandaríkjanna og þjóðernispopúlistar sækja fram í Evrópu. Samtímis gerir Kína sig gildandi á alþjóðasviðinu og Rússland reynir að endurvekja forna frægð. Þetta og margt fleira verður aðalviðfangsefni Alþjóðavarpsins í hlaðvarpi Kjarnans á vormánuðum.
Alþjóðavarpið er í umsjá Hallgríms Oddssonar og Hjalta Geirs Erlendssonar. Þættirnir verða í anda Kanavarpsins, þar sem fjallað var um forsetakosingarnar í Bandaríkjunum 2016. Hugmyndin er að kryfja helstu mál líðandi stundar með aðstoð góðra gesta.
Í fyrsta þætti Alþjóðavarpsins er meðal annars fjallað um stefnubreytingar og stefnuleysi í Bandaríkjum. Þar ber innflytjendabann Donalds Trump á góma auk samskipta Bandaríkjanna og Rússlands. Þá verður fjallað um væntanlegar kosningar í Hollandi og Frakklandi þar sem þjóðernissinnuðum flokkum er spáð góðum árangri.