Gríðarlegar breytingar hafa orðið í Kína á stuttum tíma. Ört stækkandi millistétt, aukin lífsgæði og meiri tengsl við umheiminn hafa þar valdið straumhvörfum. Kínversk stórfyrirtæki, á borð við Ali Baba og Huawei, eru að hasla sér völl á alþjóðlegum mörkuðum auk þess sem kínversk stjórnvöld hafa nýlega stigið fram á sjónarsviðið sem boðberar alþjóðlegs viðskiptafrelsis og framfara.
Þrátt fyrir efnahagslegar framfarir er staða mannréttinda í Kína enn þá veik, t.d. er bannað að gagnrýna stjórnvöld opinberlega enda ræður einræðisstjórn Kommúnistaflokksins lögum og lofum í ríkinu. Kína er enn þróunarríki þar sem flestir íbúar búa við fátækt og minnihlutahópum er haldið í skefjum með hervaldi. Því er eðlilegt að spyrja hvort Kína geti raunverulega orðið alþjóðlegt stórveldi í náinni framtíð.
Í nýjasta þætti Alþjóðavarpsins ræða þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson um Kína við Gauk Jörundsson, sem bjó Í Kína um þriggja ára skeið. Gaukur er lögfræðingur frá Háskóla Íslands og London School of Economics auk þess að vera með meistarapróf í alþjóðastjórnmálum frá hinum virta Peking-háskóla í Kína. Hann hefur sömuleiðis ferðast víða um Kína og þekkir því fjölbreytileika þessa fjölmennasta ríkis heims.
Að mati Gauks er nauðsynlegt er að kunna skil á stormasamri sögu Kína síðastliðna áratugi til þess að skilja Kína nútímans. Í þættinum er meðal annars fjallað um sögu Kína á 20. öld, stöðu mannréttinda, aukna þjóðerniskennd og framtíðarhorfur í efnahagsmálum Kína.