Hillary Clinton og Donald Trump mætast í beinni útsendingu í sjónvarpskappræðum á mánudagskvöldið. Þetta er í fyrsta skiptið sem frambjóðendurnir mætast í kappræðum og búist er við því að 100 milljónir manna muni fylgjast með. Clinton er reynslumikil og vanur ræðumaður en Trump er ólíkindatól sem veigrar ekki fyrir sér að sækja fram af hörku.
Í þriðja þætti Kanavaktarinnar hita þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson upp fyrir umræður kvöldsins auk þess sem þeir ræða um gildi sjónvarpskappræðna, bæði í samtímanum og í sögulegu ljósi.
Í þættinum verður einnig farið yfir helstu fréttamál undanfarinna daga en þar má nefna málefni góðgerðasamtaka Trump og viðbrögð frambjóðenda við hryðjuverkaárásum í New York og New Jersey.
Í síðari hluta þáttarins verður athyglinni beint að stöðu svartra í Bandaríkjunum og hvernig frambjóðendur hafa með misjöfnum árangri reynt að höfða til minnihlutahópa. Til dæmis nýtur Clinton yfirburðarstuðnings meðal svartra á meðan Trump hefur markvisst reynt að höfða til hvítra láglaunastétta.