Hillary Clinton styrkti stöðu sína í nýliðinni viku, hún kom vel út úr kappræðunum og virðist styrkja sig í sessi sem eini raunhæfi kosturinn í slagnum um Hvíta húsið. Undanfarnir dagar voru afleitir fyrir Donald Trump sem fór hamförum í kvenhatri á samfélagsmiðlum auk þess sem New York Times birti nýjar upplýsingar um skattskil þessa umdeilda frambjóðanda.
Í fjórða þætti Kanavarpsins ræða þeir Hallgrímur Oddsson og Hjalti Geir Erlendsson meðal annars um málsóknir gegn stjórnvöldum í Sádi-Arabíu, áframhaldandi vandræðagang Gary Johnson og skattamál Donald Trump.
Í síðari hluta þáttarins er athyglinni beint að Hæstarétti Bandaríkjanna og hvernig næsti forseti mun að öllum líkindum hafa mótandi áhrif á framtíð þessa æðsta dómstóls Bandaríkjanna. Það kemur í hlut næsta forseta að skipa þrjá til fjóra nýja dómara, sem mun riðla valdajafnvægi dómsins verulega. Nú er eitt sæti laust í réttinum en til viðbótar verða þrír dómarar komnir á níræðisaldur þegar næsti forseti tekur við. Þessi staða er eitt helsta tromp Donalds Trump til að höfða til íhaldsamra kjósenda, enda hefur hann lofað að skipa harðlínumenn í laus sæti.