Í þætti vikunnar er fjallað um þriðja áfanga rammaáætlunar, kræfa elda í Ástralíu, bið eftir kvótaþakstillögum ríkisstjórnarinnar og rannsóknir á WOW air.
Þingsályktunartillaga um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, þriðji áfangi rammaáætlunar, verður lögð fram á Alþingi í febrúar næstkomandi. Um óbreytta tillögu er að ræða frá því að hún var fyrst lögð fram þingveturinn 2015 til 2016 og síðar aftur 2016 til 2017. Um er að ræða umdeilda rammaáætlun.
Skiptastjórar WOW air hafa vísað nokkrum málum til embættis héraðssaksóknara vegna gruns um að þar hafi átt sér stað ólögmæt háttsemi. Á meðal þeirra mála sem þar eru undir eru mál tengd skuldabréfaútboði WOW air, sem lauk í september 2018, og mál tengd húsnæði sem Skúli Mogensen, eigandi og forstjóri WOW air, hafði til umráða í London.
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, kynnti tillögur verkefnastjórnar rétt fyrir helgi um bætt eftirlit með fiskveiðiauðlindinni er varðar endurskoðun á meðal annars skilgreiningu á tengdum aðilum í lögum um stjórn fiskveiða á ríkisstjórnarfundi. Í tillögunum er hvorki tekin afstaða til reglna um hámarksaflahlutsdeild né kröfu um hlutfall meirihlutaeignar í tengdum aðilum. Þau mál er enn til skoðunar hjá nefndinni og verður fjallað um þau í lokaskýrslu hennar, sem á að skila í mars næstkomandi. En hvað felst þá í þessum tillögum?
Varla hefur farið fram hjá nokkrum að miklir skógar- og kjarreldar hafa geisað í Ástralíu að undanförnu en mörgum dýrum hefur verið bjargað þar í landi við slæmar aðstæður. Margfalt fleiri hafa þó farist og þeirra á meðal eru þúsundir kóalabjarna.
Bára Huld Beck stýrir þættinum en með henni eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður.