Samkomubann, faðmflótti, sóttkví og smithætta. Allt eru þetta orð sem dynja á okkur daginn út og inn. Orð sem við varla þekktum áður. Og við þessar aðstæður er eðlilegt að finna fyrir kvíða. En við þessar aðstæður er einnig gríðarlega mikilvægt að temja sér æðruleysi, að hlúa að þeim sem eldri eru og veikir, og muna að lífið er hér og nú – þrátt fyrir allt.
Sunna Ósk Logadóttir, blaðamaður á Kjarnanum, er umsjónarmaður hlaðvarpsþáttarins Kvikunnar að þessu sinni. Þar ræðir hún við Huldu Jónsdóttur sálfræðing, Mosfellinginn Leif Guðjónsson sem er í sóttkví og Helenu Einarsdóttur, fimmtán ára stúlku sem hefur gert sína eigin aðgerðaáætlun.
Einnig ræðir hún við foreldra sína sem eru á áttræðisaldri og í sjálfskipaðri sóttkví á heimili sínu í jaðri Mosfellsheiðar. Þau Logi Jónsson og Helga Hólm taka því rólega innan um margra metra háa snjóskaflana og sinna vinum sínum smáfuglunum af mikilli væntumþykju.