Emil og Bryndís eru tæplega hálfnuð með 7. bókina um galdraunglinginn, Harry Potter og dauðadjásnin. Í köflum 12-15 hægist ögn á sögunni og það er ljóst að lokaátökin eru í uppsiglingu.
Harry, Ron og Hermione laumast inn í galdramálaráðuneytið í leit að nistinu, helkrossinum, sem engin önnur en Umbridge á að hafa undir höndum. Við illan leik tilflytjast þau þaðan yfir í fjarlægan skóg og eiga ekki afturkvæmt í Hroðagerði. Ron særist illa og útlegð þríeykisins hefst fyrir alvöru. Þau þurfa að hafa allan vara á, þau leita sér matar, þau eru þreytt, áhyggjufull og örmagna, og þótt þau fái nýjar vísbendingar um hvernig eyða skal helkrossum hafa þau enn ekki hugmynd um hvert næsta skref verður. Allt þetta verður að lokum fullmikið fyrir Ron.
Harry sér inn í huga Voldemorts þar sem hann leitar uppi sprotagerðamanninn Gregorovitch en það leikur á huldu hverju myrkrahöfðinginn er á höttunum eftir.
Mörgum spurningum er enn ósvarað …