Við fögnum þeim tímamótum að þáttur dagsins er 100 þáttur hlaðvarpsins með því að fá Jón Gunnar Bernburg, prófessor í félagsfræði, til Sigrúnar í spjall um rannsóknir þeirra sem tengjast hegðun og viðhorfum Íslendinga í heimsfaraldri kórónuveirunnar. Þau byrjuðu að safna gögnum, í samstarfi við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, Guðbjörgu Andreu Jónsdóttur, forstöðumann hennar og Magnús Þór Torfason, dósent í viðskiptafræði í byrjun apríl 2020 og hafa safnað daglegum gögnum síðan þá.
Í rannsókninni beina þau meðal annars sjónum að áhyggjum Íslendinga af faraldrinum, ef þeir halda að aðgerðir muni skila árangri og hvort þeir fari eftir fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda. Þessi gögn bjóða upp á einstaka möguleika á að tengja viðhorf og hegðun við hvað er að gerast í faraldrinum á hverjum tímapunkti, t.d. hvort að það hversu harðar aðgerðir eru í gangi hafi áhrif á hegðun fólks.
Þau Sigrún og Jón Gunnar segja frá rannsókninni, bæði almennt en ræða líka sérstaklega niðurstöður varðandi áhyggjur Íslendinga af faraldrinum og hlýðni við sóttvarnartilmæli. Þau setja faraldurinn einnig í stærra félagsfræðilegt samhengi og útskýra hvernig sjónarhorn félagsfræðinnar hjálpar okkur að skilja þær miklu samfélagsbreytingar sem við höfum upplifað undanfarna 20 mánuði.