Háskólar gegna margþættu hlutverki í samfélaginu og nær það langt út fyrir þau efnahagsleg áhrif, tækni og nýsköpun sem fólki er gjarnan tíðrætt um. Háskólar eru einnig drifkraftar lýðræðis, en þessi grundvallarhugmynd var kveikjan að vel heppnaðri ráðstefnu sem fram fór á dögunum við Háskólann á Akureyri undir yfirskriftinni „The Role of Universities in Addressing Societal Challenges and Fostering Democracy: Inclusion, Migration, and Education for Citizenship“.
Anna Ólafsdóttir, dósent í menntavísindum við HA og Sigurður Kristinsson og Markus Meckl, prófessorar í heimspeki við sama háskóla, stóðu fyrir fyrrgreindri ráðstefnu, sem fór fram á netinu sökum COVID-19 faraldursins og var afar vel sótt, með yfir 90 fyrirlestra og nokkur hundruð gesti. Ráðstefnan tengist tveimur RANNÍS-verkefnum þar sem annars vegar Anna og Sigurður eru aðalrannsakendur (Háskólar og lýðræði: Gagnrýnin greining á borgaralegu hlutverki háskóla í lýðræðisþjóðfélagi) og hins vegar Markus (Samfélög án aðgreiningar? Aðlögun innflytjenda á Íslandi). Báðar rannsóknirnar eru þverfræðilegar og tengja saman félags-, hug- og menntavísindi.
Guðmundur Oddsson, dósent í félagsfræði við HA, settist niður með þeim Önnu, Sigurði og Markus og ræddi við þau um náms- og starfsferil þeirra, rannsóknir og viðfangsefni ráðstefnunnar.