Sparkvarpsmenn setja báðar hendur ofan í kistuna í dag og grípa einn feitasta bita fótboltasögunnar. Þeir Árni Þórður Randversson, Þorgeir Logason og Þórhallur Valsson eru að tala um HM 2006 og mark Fabio Grosso, manninn sem breyttist í þjóðhetju á einni viku.
Grosso er frægur fyrir það eitt að koma Ítölum í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins fyrir áratug með marki á næst síðustu mínútu leiksins gegn Þjóðverjum. Sá leikur er einn skemmtilegasti leikurinn í sögu Heimsmeistaramótsins. Grosso tryggði svo Ítölum bikarinn með því að skora í síðustu vítaspyrnunni í úrslitaleiknum gegn Frökkum.
Hvernig Grosso fagnaði gegn Þjóðverjum er hins vegar það sem mun ávallt lifa í hjörtum Sparkvarpsmanna enda minnti það mikið á það þegar Marco Tardelli skoraði í úrslitaleik gegn Þjóðverjum árið 1982. Í þættinum í dag er farið yfir atvik og mörk frá Heimsmeistaramótinu 2006, ítalska skandalinn og að sjálfsögðu Fabio Grosso.