Það er varla til auðkýfingur sem er ekki að reyna að kaupa fótboltalið einhverstaðar í heiminum. Það tíðkast æ víðar að moldríkir fjárfestar kaupi lið og flestir ætla sér óraunverulega hluti á mjög stuttum tíma. Eignarhald í knattspyrnuheiminum er til umfjöllunar í Sparkvarpinu þessa vikuna.
Umsjónarmenn þáttarins eru Þorgeir Logason og Þórhallur Valsson. Fólk hefur vitanlega mismunandi skoðanir á því hvort þetta sé góð eða slæm þróun. Þetta er hins vegar sú átt sem boltinn stefnir í.
Sérstaklega er fjallað um tvo stóra eigendur fótboltaliða. Annars vegar er það Pozzo-fjölskyldan sem eiga bæði Udinese á Ítalíu og Watford á Englandi. Hins vegar er það svo orkudrykkjaframleiðandinn Red Bull sem er að gera sig breiðan í knattspyrnuheiminum eftir að hafa verið áberandi í jaðaríþróttum um árabil. Red Bull á til dæmis RB Leipzig í Þýskalandi og New York Red Bulls í Bandaríkjunum og beitt óvanalegum leiðum til að komast fram hjá reglum um eignarhald, í það minnsta í Evrópu.
Pozzo-feðgar hafa verið duglegir að skipta leikmönnum á milli liðana sinna og hafa ævintýralega litla þolinmæði fyrir þjálfurunum sínum. Bæði viðskiptaveldin — Pozzo og Red Bull — eiga það hins vegar sameiginlegt að vera með gríðarlegan metnað og báðum hefur tekist vel til þrátt fyrir vafasaman rekstur á knattspyrnuklúbbum.