Newcastle United á sérstakan stað í hjörtum fjölda fólks víða um heim. Þessi merkilegi klúbbur er aðalumræðuefni Sparkvarpsins þessa vikuna. Borgin Newcastle er í Norðaustur-Englandi en segja má að fótboltinn sé að vissu leyti að færast frá þeim hluta og lengra til suðurs. Það sést einna helst á magni liða frá Suður-Englandi í ensku úrvalsdeildinni.
Það er þó áhugavert við Newcastle hvað klúbburinn er stór. Síðustu ár og áratugir hafa hins vegar verið mikil rússíbanareið fyrir félagið og það hefur ekki unnið marga stóra titla eða náð neitt sérlega góðum árangri.
Í þættinum er fjallað um „Trúðana á Tyneside“ og Sparkvarpsmenn leika sér að því að setja saman byrjunarlið verstu leikmannanna sem spilað hafa fyrir Newcastle síðustu 15 árin. Ásamt því fjalla þeir um „frönsku innleiðinguna“ sem átti sér stað fyrir nokkrum árum og einnig tiltektina hans Rafa Benitez.
Newcastle-liðið er sem stendur efst í Championship-deildinni og eru þar afburðalið. Þar hafa þeir spilað frábæran bolta og njóta þess greinilega að vera stór fiskur í aðeins minni tjörn.