Í þessum þætti af Sparkvarpinu er spjallað um litla liðið í Torino, Torino FC. Liðið hefur verið á talsverðu flakki upp og niður Serie A-deildina á síðustu árum og hafa þurft að lifa í skugga Juventus, stóra bróður síns í Torino. Strákarnir fóru yfir gengi Torino og möguleika þeirra í ár, ásamt því að ræða einstaka leikmenn í liðinu.
Frægt var í sumar þegar Joe Hart landsliðsmarkmaður Englands fór á láni til liðsins en viðskiptin voru ein þau óvæntustu síðastliðið sumar, ekki síst vegna slæms gengis hjá Englendingum í Ítölskum fótbolta. Sparkvarpið rifjaði upp nokkra leikmenn sem fóru til Ítalíu frá Englandi og ræddu um hvernig þeim gekk.
Þeir taka einnig fyrir sögu Torino en klúbburinn á sér mikla sorgarsögu og segja margir að þeir hafi ekki náð að jafna sig á þeim atburðum sem gerðust enn þann dag í dag.
Það var þannig að árið 1949 fórst eitt besta fótboltalið allra tíma í flugslysi. Slysið hafði gríðarleg áhrif á klúbbinn sem og ítölsku þjóðina því að liðið var á þeim tíma fjórfaldir Ítalíumeistarar og á leiðinni að vinna sinn fimmta í röð.
Spurningin er hvort að þessi fornfrægi klúbbur muni einhvern tímann ná sömu hæðum á ný?