Í þessum þætti af Sparkvarpinu er fjallað um hollenska knattspyrnu og hvar hún stendur í dag, ofmat á hollenskum leikmönnum, gæði deildarinnar og margt fleira.
Þeir Þorgeir Logason, Árni Þórður Randversson og Þórhallur Valsson ræddu hollenska liðið Feyenoord sérstaklega sem lið vikunnar. Það situr nú á toppi hollensku deildarinnar eftir fyrstu 12 leiki tímabilsins.
Liðið hét áður Feijenoord en liðið breytti nafninu sínu vegna góðs gengis í Evrópu og aukins áhuga víðs vegar um heiminn. Eftir slæmt gengi síðustu ár í deildinni og fjárhagsvandamál hafa hlutirnir verið á uppleið í stjóratíð Ronald Koeman.
Í dag stjórnar Gio van Bronckhorst liðinu sem var ósigrað í fyrstu 11 leikjunum á þessu tímabili. Feyenoord hafa hins vegar oft verið þekktir fyrir að klúðra málunum og spurningin er hvort að þeim takist að verða meistarar í vor.