Í höfuðstað Danmerkur eru tvö knattspyrnulið sem eru ein þau sigursælustu í dönskum fótbolta. Það eru F.C. København (sem oftast er einfaldlega kallað FCK) og Brøndby. Þessi lið eru með þeim stærstu á öllum Norðurlöndunum. Sparkvarpið ræðir sögu þessara liða og baráttu þeirra um völdin í Kaupmannahöfn í þætti dagsins.
Danskir knattspyrnuunnendur flykkjast á leiki þessara liða í dönsku deildinni og í bikarmótum, oftar en ekki vopnaðir blysum og risastórum fánum. Það getur því verið mikil upplifun að vera viðstaddur viðureign þessara liða.
Undanfarin ár hefur annað liðið hins vegar tekið fram úr hinu. FCK hefur unnið hvern titilinn á fætur öðrum í Danmörku undanfarin 10 ár og reglulega tekið þátt í Evrópukeppnum á meðan Brøndby hefur átt erfitt uppdráttar. Besti árangur liðsins í dönsku úrvalsdeildinni síðustu 10 árin er annað sætið árið 2006.