Afríkukeppnin í fótbolta hefst næsta laugardag, 14. janúar þegar keppnin verður flautuð á í 31. skipti í Gabon. Fyrsti Sparkvarpsþáttur ársins fjallar um Afríkukeppnina og afrískan fótbolta. Í þættinum er farið yfir liðin sem eru líklegust til sigurs á mótinu og fjallað sérstaklega um þrjú Afríkulönd; Úganda, Gabon og Egyptaland.
Úganda er að taka þátt í keppninni í fyrsta sinn í 39 ár, heimamenn í Gabon ætla sér stóra hluti á mótinu og Egyptaland er sigursælasta þjóð mótsins. Miklar væntingar eru gerðar til þjóðanna frá Norður-Afríku í aðdraganda mótsins og Egyptaland er talið sigurstranlegast. Alsíringar búast sömuleiðis við góðu gengi en besti leikmaður þeirra, Riyad Mahrez, var á dögunum kosinn besti leikmaður álfunnar 2016.
Auk þess að ræða mótið sjálft töluðu þeir einnig um fótboltann í Afríku, vinsældir liðanna, sögur úr deildarkeppnum og helstu vandamál boltans í Afríku.
Þeir Þorgeir Logason, Árni Þórður Randversson og Þórhallur Valsson eru umsjónarmenn þáttarins. Þeir spáðu einnig í spilin fyrir árið 2017 í fótboltaheiminum. Hvaða leikmaður mun koma upp á sjónvarsviðið 2017, hvaða lið mun komast upp í ensku úrvalsdeildina, hvaða leikmaður verður dýrastur á árinu og fleira.
Í lokin var rykinu svo dustað af kistunni. Það var sagan af Al-Saadi Gadhafi, syni fyrrum einræðisherra Lýbíu sem kom upp úr henni í þetta sinn. Al-Saadi Gadhafi lék um skeið á Ítalíu fyrir Perugia og Udinese og spilaði heilar 20 mínútur í Seríu A á 3 árum. Saga hans í boltanum er ótruleg en hann mun seint vera álitinn góður fótboltamaður þrátt fyrir að hafa meðal annars haft Maradona sem persónulegan ráðgjafa.