Í Sparkvarpi vikunnar var Baskahéraðið á Spáni tekið fyrir. Þar eru fjögur lið sem keppa í La Liga, efstu deildinni á Spáni. Það eru Deportivo Alaves, Athletic Bilbao, Real Sociedad og Eibar. Auk þess er Osasuna, sem er innan Stóra-Baskahéraðsins einnig í efstu deild.
Athletic Bilbao hafa verið þekktir fyrir „cantera-stefnuna“ sína sem er nokkurs konar óskrifuð regla innan félagsins. Stefnan var tekin upp árið 1912 og síðan þá hefur liðið fylgt því eftir. Hún er fólgin í því að einungis baskneskir leikmenn eða leikmenn sem alast þar upp mega spila fyrir félagið.
Real Sociedad, næst sigursælasta liðið í Baskahéraði var áður fyrr einnig með samlíka stefnu en hætti henni svo 1989 þegar liðið keypti John Aldridge frá Liverpool. Innan liðsins leið mönnum eins og þeir sætu eftir í samkeppni við stórlið eins og Barcelona og Real Madrid og lagði hana því þá niður.
Ævintýri Eibars er ótrúleg, liðið er á sínu öðru ári í La Liga en kom upp í deildina í fyrra eftir að hafa farið beint upp í aðra deild árinu áður. Bærinn Eibar telur 27 þúsund manns og er fámennari en Kópavogur.
Strákarnir fóru yfir það merkilegasta við þessi lið ásamt því að tala um stolt fólksins í Baskahéraði. Þá rifjuðu þeir upp merkilegan leik milli Real Sociedad og Athetlic Bilbao (árið 1976) en það var fyrir allt annað en fótboltann sem var spilaður þann dag.
Rígur þessara nágrannaliða hefur fengið stimpilinn sem vinalegasti grannaslagur í boltanum en þó eru líka heitar tilfinningarnar beggja stuðningsmanna í garð hins liðsins.