Í Sparkvarpi vikunnar er rætt við Peter Coates, ritstjóra fótboltatímaritsins GonzaoArgentino. Coates er á línunni frá Buenos Aires í Argentínu en hann hefur verið þar um þó nokkuð skeið og skrifar einnig fyrir Indipendent, Gazettaworld og WhoScored um deildarkeppnina í landinu og um argentínska landsliðið.
Deildarkeppnin í Argentínu er stopp þessa dagana vegna skorts á fjármagni hjá argentínska knattspyrnusambandinu, AFA. Liðin hafa ekki fengið greiðslur og neita að spila þangað til að þau fá greitt. Þetta er eitthvað sem sambandið hefur verið að reyna að leysa en vandinn felst í sjónvarpsréttarsamningum. Talsverð spilling hefur verið innan sambandsins síðustu ár sem má rekja til valdatíðar Julio Grondona sem lést árið 2014 og hafði verið forseti sambandsins síðan 1979.
Þeir Þórhallur og Þorgeir spurðu Coates um stöðu mála og um Barras brava-stuðnigsmannasveitirnirnar, sem eru nokkurs konar Ultras í Argentínu. Barras brava eru flæktir inn í knattspyrnufélögin í landinu og hafa gríðarleg völd hjá liðunum. Þar stjórna þeir ýmsu eins og til dæmis kaupum á leikmönnum, endursölu miða o.s.frv.
Í viðtalinu við Coates er einnig farið yfir Superclasico-slaginn, milli Boca og River. Auk þess spurðu strákarnir hversu mikil áhrif fall River Plate úr efstu deild árið 2011 hefur haft á fótbolta í Argentínu. Deildarkerfið í Argentínu er ólíkt því sem tiðkast í Evrópu að því leyti að árangur síðustu þriggja ára skiptir máli sem gerir fall River enn merkilegri.
Þá ræddu þeir furðulegt val landsliðsþjálfarans Edgardo Bauza í leikmannahópinn en liðið hefur ekki staðið sig vel í undankeppni HM og situr liðið í 5. sæti suður-ameríska riðilsins. Bauza hefur kosið að velja hinn 28 ára gamla Lucas Pratto sem spilar í Brasílíu fram yfir leikmenn eins og Mauro Icardi og Lucas Alario, framherja River Plate. Auk þess talaði Peter um slappt gengi U20 landsliðsins sem rétt komst á HM U20 sem verður haldið á þessu ári.