Í þætti vikunnar beindi Sparkvarpið sjónum sínum að sænskri knattspyrnu. Þeir Þórhallur og Þorgeir fengu til sín Johan Tegelblom sem er stuðningsmaður AIK og hefur búið á Íslandi síðastliðin 10 ár. Farið var yfir hvernig menning sænskra stuðningsmanna er í Stokkhólmi og víðar í Svíþjóð.
Í Stokkhólmi eru þrjú lið, AIK, Djurgarden og Hammarby. AIK-liðið leikur í Solna-hverfinu og er sagt vera hataðasta liðið í Svíþjóð. Með liðinu leikur einn Íslendingur, Haukur Heiðar Hauksson. Djurgarden er álitið vera snobbliðið í landinu en heimahverfi þeirra er Östermalm. Þá leikur lið Hammarby einnig á sama velli og Djurgarden,Tele2 Arena en þeir eru frægir fyrir hipsterastuðningsmenn frá Södermalm.
Í þættinum var komið inn á hvernig kúltúrinn í Svíþjóð er frábrugðinn því sem tíðkast hér á landi. Johan kom inn á hvernig Svíar styðja fyrst og fremst sín heimalið og furðaði sig á því að fólk styðji meira lið úr enska boltanum eins og þekkt er á Íslandi.
Í lokin ræddu þeir stöðuna á sænska landsliðinu og lífið eftir Zlatan.