Í Sparkvarpi vikunnar fara þeir Árni, Þorgeir og Þórhallur víða um Evrópu og spjalla um hvaða lið eiga möguleika á að spila í efstu deildum á næsta tímabili. Maí er ekki bara mánuður Eurovision, prófsvita og gyðjunnar Maiu, heldur er hann einnig mánuðurinn þar sem stærstu lið Evrópu spila síðustu leiki tímabilsins. Það er nánast ljóst hvaða lið vinna dolluna í ár en spennan er enn þá mikil á einhverjum vígstöðum.
Á Ítalíu eru mörg lið sem eiga séns á að leika í Serie A á næsta tímabili. Árni er staddur í Mílanó og fer yfir hvaða lið geta enn þá tryggt sér sæti meðal þeirra bestu. SPAL tróna á toppnum í Serie B og eiga möguleika á að komast upp í efstu deild eftir nærri 50 ára fjarveru.
Það er nóg eftir af Championship-deildinni í Englandi þó að hefðbundin deildarkeppni sé búinn. Fjögur lið eiga eftir að mætast í umspili um eitt laust sæti í úrvalsdeildina en Newcastle og Brighton hafa þegar tryggt sér farmiða þangað. Reading, Sheffield Wednesday, Huddersfield og Fulham hafa öll staðið sig vel á tímabilinu en því miður er einungis eitt sæti laust milli deilda.
Línurnar eru nokkurn veginn farnar að skýrast í Bundesligu 2 í Þýskalandi varðandi hvaða lið munu fara upp en ýmislegt getur gerst. Liðin sem féllu úr Bundesligunni í fyrra, Stuttgart og Hannover 96, sitja í tveimur efstu sætunum en baráttan er gríðarleg um þriðja sætið sætið sem jafnframt er umspilssætið. Strákarnir í Sparkvarpinu krossa fingur með fleiri fótboltaunnendum og vona að hipster-klúbburinn Union Berlin nái að landa þessu sæti.