Í síðustu viku fór Sparkvarpið yfir þau lið sem eru nú þegar búin eða eru líkleg til þess að tryggja sér sæti í stærstu deildum Evrópu. Uppgjörið heldur áfram í þessari viku þar sem fimm stærstu deildir Evrópu eru til umfjöllunar.
Athugið að þátturinn var tekinn upp fyrir umferð helgarinnar 13. og 14. maí.
Þeir Þorgeir og Þórhallur hringdu til Milan þar sem Árni er staddur. Árni fór yfir tímabilið í Seríu A, drengirnir töluðu um vandamál Mílanó-liðanna, hið óstöðvandi lið Juventus, bestu leikmenn tímabilsins, hvaða lið komu á óvart og hverjir spiluðu undir væntingum. Kynþáttafordómar hafa verið í umræðu þar í landi síðustu vikur þar sem Sulley Muntari var í brennidepli.
Hin hollenska Eredivise er einnig til umræðu. Í þeirri deild er mesta spennan af þeim deildum sem voru til umræðu. Feyenoord hefur gengið vel en liðið er skipað af ungum leikmönnum í bland við reynda leikmenn sem gætu landað titlinum í Hollandi á lokadegi. Þetta er annað árið í röð þar sem deildin ræðst á lokadegi og verður forvitnilegt að vita hvort að liðið frá Rotterdam standist pressuna og hampi titlinum. Ajax á einnig möguleika á titlinum en þeir hafa átt gott tímabil í Evrópu og í heimalandinu á meðan PSV hafa valdið vonbrigðum með sinn öfluga hóp.
Í Þýskalandi fór enn einn titilinn til Bæjaralands í Þýskalandi. Þá átti RB Leipzig ótrúlegt tímabil á meðan stærri lið eins og Dortmund, Schalke og sérstaklega Leverkusen ollu vonbrigðum. Tímabilið var bæting á því sem var í fyrra þökk sé liðum eins og Leipzig og óvæntum árangri annarra liða.
Drengirnir vona innilega að Mónakó standi uppi sem sigurvegari í Frakklandi en liðið hefur náð ótrúlegum viðsnúningi eftir fjárhagsvanda. Grófasta lið deildarinnar, Bastia-liðið frá Korsíku, féll en þeir settu heldur betur svip sinn á deildina þetta árið.
Á Spáni var tekinn svokölluð „Speedy Gonzalez-yfirferð“. Tony Adams tók við Granada og stýrði þeim beint niður úr La Liga á meðan sömu lið eru á toppnum og í kringum toppinn.
- Ítalía – 4:20 min
- Holland – 24:40 min.
- Þýskaland – 38:10 min.
- Spánn – 50:50 min.
- Frakkland – 53:35 min.