Stefán Pálsson sagnfræðingur er í heimsókn í Sparkvarpinu þessa vikuna. Hann er dyggur stuðningsmaður Fram í fótbolta og hefur séð tímanna tvenna hjá þessu fornfræga félagi í Reykjavík. Hann rifjar upp dagana þegar hann var polli í Vesturbænum og fór langa leið til þess að styðja sitt lið.
Karlalið Fram hefur verið mikið í deiglunni í sumar vegna brottrekstrar Ásmundar Arnarsonar. Stefán rýndi aðeins í stöðu mála hjá klúbbnum og hvernig það er að vera stuðningsmaður Fram í gegnum súrt og sætt.
Þessi þáttur er annar þáttur í íslenskri syrpu þeirra Sparkvarpsmanna. Stefán fór yfir stöðu íslenskra stuðningsmanna og rifjaði upp þegar lukkudýr Fram var lifandi refur. Honum þykir miðaverðið á Pepsi-deildina ekki hátt og finnst það heldur miður að stuðningsmenn íslenskra félagsliða taka liðin í ensku úrvalsdeildinni fram yfir á leikdegi.
Sagnfræðingurinn er einnig mikill stuðningsmaður Luton Town í ensku fjórðu deildinni. Strákarnir komust að því hvað til kom að Stefán studdi Luton frá barnæsku. Bærinn Luton er einna helst þekktur fyrir að vera einn af flugvöllunum í kringum London en Stefán sagði sögur af ferðum hans á leiki með neðri deildarliðinu í þetta litla bæjarfélag, háleitum markmiðum stjórnar félagsins og hvernig liðið hefur flakkað á milli deilda síðast liðinn áratug.