Í þessum þætti Sparkvarpsins var umræðunni beint að starfi knattspyrnudómarans. Þórhallur og Þorgeir fengu til sín góðan gest, milliríkjadómarann Gunnar Jarl Jónsson til að ræða málin. Gunnar hefur í nokkurt skeið verið fremstur í flokki dómara hér á landi ásamt því að dæma í Evrópu.
Umræða þáttarins snerist aðallega um almenna gagnrýni á dómara. Oftar en ekki er umfjöllun ansi neikvæð í garð dómarans, bæði hér heima og í öðrum löndum. Gunnar talaði einnig um verkefni íslenskra dómara erlendis en sjaldan hafa verkefnin verið jafn mörg eins og nú. Pressan er hins vegar gríðarleg frá UEFA en þeir setja háan staðal á frammistöðu dómara. Íslenskir dómarar keppa aðeins við atvinnumenn í þessum geira. Það er nánast án undantekninga að dómarar þurfi að eiga toppleik til þess að komast lengra eða halda starfi sínu samkvæmt Gunnari.
Að auki töluðu strákarnir um þær tækninýjungar sem hafa komið inn í fótboltann á síðustu misserum og hvernig þær hafa virkað.
Þátturinn er sá þriðji í íslenskri syrpu þeirra Sparkvarpsmanna um íslenska boltann.