Í Sparkvarpi vikunnar var fjallað um Þrjú minni lið á Ítalíu sem öll byrja á B. Þetta eru liðin Brescia, Bari og Bologna. Strákarnir fengu hann Björn Má Ólafsson, spekúlant um ítalska boltann til sín í spjall til þess að ræða um liðin þrjú.
Brescia er staðsett í Langbarðalandi, norðarlega á Ítalíu, og hefur dúsað flest sín ár í Seríu B. Þrátt fyrir það hafa margar goðsagnir fótboltans stoppað við í Brescia og leikið fyrir þá bláu. Um er að ræða nöfn á borð við Andrea Pirlo, Gheorghe Hagi, Roberto Baggio og Pep Guardiola.
Bari er staðsett sunnarlega á Ítalíu og leikur í Seríu B, líkt og Brescia. Þeir eiga þó einn stærsta völl á Ítalíu sem var reistur fyrir HM 90. Farið var yfir lógó félagsins sem er eitt það skemmtilegasta í boltanum og einnig rætt um völlinn þeirra sem lengi hefur verið líkt við geimskip.
Að lokum var rætt um Bologna, eina liðið af þessum þremur sem leikur í efstu deild. Liðið á sér langa sögu, hefur meðal annars unnið 7 deildartitla og því sigursælla en liðin Lazio, Roma, Napoli og Fiorentina. Strákarnir ræddu um þennan sofandi risa á Ítalíu og gamlan forseta liðsins.