Tilkoma Costco á íslenskan smásölumarkað hefur haft margvíslegar afleiðingar fyrir markaðinn. Græjufíklar finna líka fyrir Costco, eins og bíleigendur og ískápaunnendur. Tæknivarpið spjallaði um græjumarkaðinn eftir innkomu Costco, Galaxy S8 og sjónvarpsáskrifendur á Íslandi.
Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Atli Stefán Yngvason, Sverrir Björgvinsson og Bjarni Ben.
Þeir ræða til dæmis um verðlækkanir á PlayStation 4-tölvunni eftir að Costco opnaði. Tölvan kostaði 59.999 krónur áður en fæst á 46.999 krónur nú.
Tæknivarpið hefur hins vegar komist að því að samkeppnisaðilar virðast lækka verð á vörum sem Costco selur, en ekki öðrum. Sem dæmi má nefna tvær gerðir PlayStation 4-tölvunnar. Verðmunurinn á PS4 Slim og PS4 Pro er lítill í dag. Costco selur aðra vöruna en ekki hina.
59% íslendinga búa á Netflix-væddu heimili
Auk þess að fjalla um græjur á smásölumarkaði spjalla þeir um áskrifendur að 365. Innkoma erlendra efnisveitna á íslenskan sjónvarpsmarkað og hröð framþróun í tækni og neyslu afþreyingarefnis hefur gert það að verkum að mun færri heimili kaupa áskrift að Stöð 2 og öðrum sjónvarpsstöðvum 365 en gerðu það fyrir tveimur árum.
Netflix er með flesta áskrifendur á Íslandi, alls 54.120 áskrifendur (40%). 8 af hverjum 10 Íslendingum á aldrinum 18-29 ára eru með Netflix (#takkEinstein).
Í frétt sem birtist 9. júní segir svo að tæplega 59% Íslendinga búi á heimili þar sem Netflix er til staðar.
Besti Android-síminn í dag
Tæknivarpið er búið að prófa Galaxy S8-snjallsímann og segir þetta vera besta Android-símann á markaðinum í dag. Það eru hins vegar nokkur atriði sem draga einkunn símans niður. Síminn fer hins vegar betur í hendi en iPhone 7 Plus og skartar betri myndavél en í Apple-símanum.
Síðasti þáttur vetrarins
Þetta er síðasti Tæknivarps-þáttur vetrarins. Tæknivarpið snýr aftur í Hlaðvarpi Kjarnans þegar haustlægðirnar fara að gera vart við sig. Það eru margir viðburðir sem spennandi verður að fylgjast með og ný tól til þess að prófa og spjalla um.
Tæknivarpið þakkar hlustunina í vetur. Gleðilegt sumar!