Þjóðhættir er glænýtt hlaðvarp um rannsóknir og miðlun í þjóðfræði. Sjónum verður beint að fólki og hvaða merkingu það leggur í siði og venjur, hluti og umhverfi auk þess sem fjallað verður um ólíkar miðlunarleiðir, söfnun og hagnýtingu þjóðfræðiefnis og margt fleira. Umfjöllunarefnin eru fjölbreytt og spennandi og hafa mörg hver óvænta tengingu við samfélagsumræðuna.
Umsjónarkonur eru Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.
Í fyrsta þættinum hitta Dagrún og Vilhelmína rithöfundana Vilborgu Davíðsdóttur og Benný Sif Ísleifsdóttur sem báðar eru þjóðfræðimenntaðar. Við ræðum um nýútkomnar bækurnar þeirra Undir Yggdrasil og Hansdætur, ritstörfin og listina að skrifa sögulega skáldsögu. Við ræðum einnig um hvernig þjóðfræðimenntunin kemur að góðum notum við ritstörfin og á þátt í að móta sjónarhorn og sögusvið. Þó að 1.000 ár skilji að sagnaheim höfundanna þá glíma þær við margar sömu áskoranirnar m.a. í heimildavinnu, reynsluheim kvenna og ósagðri sögu um „neðanmittisvesen“.