Háskóli Íslands starfrækir rannsóknasetur víðs vegar um landið. Eitt slíkt hefur verið starfrækt á Ströndum síðan árið 2016 og þar er áherslan á þjóðfræðirannsóknir og miðlun. Í þættinum hitta Dagrún og Vilhelmína verkefnisstjóra setursins á Ströndum, Jón Jónsson þjóðfræðing.
Í rannsóknum setursins kennir ýmissa grasa og segir Jón frá þeim fjölbreyttu verkefnum sem þar eru unnin. Við ræðum meðal annars um hvað samfélagið getur lært af sögnum um förufólk og jaðarsetningu og um dagbókarskrif og tilfinningar í gamla sveitasamfélaginu. Í starfseminni er lögð sérstök áhersla á fjölbreytta, hagnýta og aðgengilega miðlun.
Jón segir okkur frá útgáfuverkefnum og ræðir auk þess þýðingu slíkrar þekkingarmiðstöðvar fyrir nærsamfélagið. Þá leiðir Jón okkur í allan sannleikann um hvernig komast skuli undan ísbirni verði hann á vegi manns sem svo sannarlega verður að teljast hagnýt þjóðfræðiþekking.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir í þjóðfræði og fjölbreytta miðlun á þjóðfræðiefni. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.