Öll höfum við okkar hugmyndir um víkinga sem sigldu um úfin höf, könnuðu ókunn lönd, börðust og rændu. Fornleifarannsóknir hafa fært okkur minjar frá víkingatímanum og fræðafólk úr ýmsum greinum hefur velt vöngum yfir lífi og sögu þeirra. Víkingar hafa einnig verið vinsælt þema í ímyndarsköpun, afþreyingariðnaði og markaðsherferðum. En er ímynd víkinga, túlkun og framsetning á söfnum alltaf í samræmi við sögulegar heimildir? Hvað með skuggahliðar víkinga?
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Guðrúnu Dröfn Whitehead lektor í safnafræði við Háskóla Íslands. Guðrún Dröfn segir frá rannsóknum sínum á víkingunum og birtingarmyndum þeirra á söfnum meðal annars á Íslandi, í Noregi og Bretlandi. Slík samanburðarrannsókn veitir m.a. innsýn í hvernig víkingaþema er notað í tengslum við ferðaþjónustu og ímyndarsköpun.
Guðrún Dröfn segir einnig frá því hvernig víkingar tengjast sjálfsmynd Íslendinga, útrásarvíkingum og víkingaklappinu. Við ræðum þær áskoranir sem söfn standa frammi fyrir varðandi framsetningu á fortíðinni og hvort söfn eigi að taka afstöðu og bregðast við hitamálum og samfélagsumræðu. Að auki ræðum við hvernig dægurmenning, t.d. kvikmyndir og þættir, hafa áhrif á hugmyndir fólks um víkinga. Svo er auðvitað ekki hægt að fjalla um víkinga án þess að ræða um hyrnda hjálminn.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði og safnafræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.