Þjóðfræði er kennd við Háskóla Íslands, bæði í grunnnámi og á meistarastigi. Námið er fjölbreytt og rannsóknir nemenda endurspegla vissulega þá miklu breidd sem finna má innan fagsins.
Þátturinn í dag er því helgaður rannsóknum nemenda í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Dagrún og Vilhelmína tóku tali þrjá nýlega útskrifaða þjóðfræðinga sem luku BA-prófi í fyrra og fengu að heyra um rannsóknir þeirra. Í þættinum er því sýnishorn af því spennandi starfi sem fer fram innan námsbrautarinnar. Við fræðumst um stórskemmtilegar sögur af tilviljunum og hvað heimurinn getur verið lítill, nafnasiði í ýmsum löndum og merkingu þeirra í hugum fólks og að lokum upplifun fólks af þjóðbúningnum og hvernig einstaklingar nota hann á óhefðbundinn hátt.
Viðmælendur í þættinum eru:
Anna Karen Unnsteinsdóttir sem segir frá ritgerð sinni sem nefnist Helgigripur eða veisluklæði? Reglufesta og hefðarrof í notkun íslenskra þjóðbúninga.
Iðunn Haraldsdóttir sem segir frá ritgerð sinni sem nefnist Fjórðungi bregður til nafns: Hvað liggur að baki nafnavali Íslendinga?
Sandra Björk Jónasdóttir sem segir frá ritgerð sinni sem nefnist „Heimurinn er ekki stærri en þetta“: Frásagnarhefð og persónuleg upplifun einstaklinga af smáheimssögnum.