Í Dalvíkurbyggð er rekin öflug safna- og menningarstarfsemi. Undir sama hatti eru rekin bókasafn, héraðsskjalasafn, Byggðasafnið Hvoll og Menningarhúsið Berg. Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Björk Hólm þjóðfræðing og framkvæmdastjóra, sem stýrir allri þessari fjölbreyttu starfsemi og veitir forstöðu.
Björk segir frá því hvernig hún fann sína réttu fjöl í námi í þjóðfræði og hvernig það stækkaði heimsmynd hennar. Í þjóðfræðináminu vann Björk meistararannsókn um upplifun kvenna af öryggi í miðborg Reykjavíkur og tók viðtöl við konur sem deildu með henni sinni reynslu. Björk fjallar meðal annars um svokölluð öryggisbrögð sem konur beita til að auka öryggistilfinningu sína þegar þær ganga um miðborgina sem og hvort öryggismyndavélar hafi áhrif á þessa tilfinningu. Þá segir hún frá hvernig umræða um þessi málefni tók breytingum á meðan hún vann rannsóknina til dæmis í kjölfar byltinga eins og #metoo.
Að lokum segir Björk frá því hvernig námið hefur gagnast henni í starfi. Hún segir einnig frá sýn sinni á hlutverk safnanna og menningarhússins sem hún veitir forstöðu og hvernig þjóðfræði gengur sem rauður þráður í gegnum starfsemina.