Í laufléttum og skemmtilegum jólaþætti fá Dagrún og Vilhelmína til sín góða gesti.
Eiríkur Valdimarsson þjóðfræðingur hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum – þjóðfræðistofu, segir fréttir af starfseminni. Í haust stóð Rannsóknasetrið fyrir athyglisverðu námskeiði fyrir almenning um ritun endurminninga. Námskeiðið var vel sótt og tókst með eindæmum vel. Þá segir Eiríkur frá nýrri bók sem kom út nú í desember og nefnist Myndir og minningar frá Ströndum. Bókin er samstarfsverkefni Rannsóknarsetursins og Sauðfjárseturs. Í bókinni eru 42 frásagnir og myndir, sem eru jafn fjölbreyttar og þær eru margar og koma frá fólki á Ströndum eða sem hefur tengingar við svæðið. Myndirnar og frásagnirnar. Eiríkur ræðir einnig ýmsa þjóðtrú tengda veðri og gefur góð ráð hvernig spá má fyrir um jólaveðrið.
Eva Þórdís Ebenezerdóttir doktorsnemi í þjóðfræði segir frá jólasveininum Stekkjastaur út frá nýstárlegu sjónarhorni. Stekkjastaur er þekktur fyrir að vera stirður og með staurfót, en hvað þýðir það í raun? Í rannsóknum sínum blandar Eva Þórdís saman þjóðfræði og fötlunarfræði og í þættinum greinir hún frá niðurstöðum sínum varðandi þennan áhugaverða jólasvein og birtingarmyndir hans.
Að lokum ræða Dagrún og Vilhelmína við Margréti Höskuldsdóttur rithöfund. Bók hennar Dalurinn kom út fyrr á þessu ári. Bókin segir frá Sif, ungum þjóðfræðinema sem dvelur í afskekktum dal vestur á fjörðum og skrifar þar lokaritgerð í þjóðfræði. Dularfullir atburðir eiga sér stað og ýmsar þjóðsagnapersónur og vættir koma við sögu.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.