Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Ragnheiði Maísól Sturludóttur, meistaranema í þjóðfræði. Ragnheiður Maísól er menntuð í myndlist en stundar nú meistaranám í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Rannsókn hennar snýr að súrdeigsbakstri á Íslandi. Ragnheiður bakar sjálf súrdeigsbrauð og hefur verið virk í samfélagi súrdeigsbakara en hún stjórnar stórum Facebook-hópi um bakstur af þessu tagi og heldur úti bloggsíðu. Það má því segja að hún hafi gert áhugamál sitt og ástríðu að rannsóknarverkefni.
Súrdeigsbakstur varð sérstaklega vinsæll þegar Covid gekk yfir enda var fólk þá meira heima við en áður. Ragnheiður Maísól segir frá því að súrinn fái oft mannleg einkenni. Til dæmis sé oft hægt að rekja ættir hans langt aftur og margir bera sérstök nöfn, en samkvæmt Ragnheiði er nafnið Gísli Súrsson líklega það vinsælasta á Íslandi. Það þarf líka að hugsa um súrinn en hann hagar sér á ólíkan hátt. Þá segir Ragnheiður frá tengslum súrdeigsbakara við súrinn og baksturinn og hvernig hann verður hluti af sjálfsmynd þeirra sem baka.
Rannsókn Ragnheiðar Maísól er hluti af þverfaglega rannsóknarverkefninu Samlífi/SYMBIOSIS sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannís. Í verkefninu leiða saman hesta sína matvælafræðingar, næringarfræðingar, örverufræðingar, mannfræðingar og þjóðfræðingar og skoða samlífi manna og örvera.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.