Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Særúnu Lísu Birgisdóttur þjóðfræðing. Særún Lísa segir frá nýrri bók sinni sem nefnist Hættið þessu fikti strákar! Bókin fjallar um homma í íslensku samfélagi og menningu, frá tímum Íslendingasagnanna og fram yfir hernám.
Áhugann á efninu fékk Særún strax í þjóðfræðinámi sínu, upphaflega í námskeiðinu Söfnun þjóðfræða, en svo þróaðist áhuginn, efnið og rannsóknin og hún vann úr því bæði í BA-ritgerð sinni og meistararitgerð. Í rannsókninni byggir hún meðal annars á frásögnum og viðtölum við karlmenn sem voru í „ástandinu“ á hernámsárunum. Þá byggir hún einnig á dagbókarskrifum, blaðaumfjöllun og fleiru um viðhorf til samkynhneigðra manna.
Með bókinni segist Særún Lísa vilja veita hommum fortíðar uppreist æru með því að draga sögur þeirra fram í dagsljósið. Hún segir einnig að bókin sjálf eigi að vera fallegur prentgripur, áberandi og skínandi fögur svo hún lendi ekki inni í skáp eins og margir af viðmælendum hennar gerðu. Ingibjörg Soffía Oddsdóttir, grafískur hönnuður, hannaði bókina og er hún prýdd verkum eftir myndlistarkonuna Írisi Auði Jónsdóttur.
Særún Lísa safnar nú fyrir útgáfu bókarinnar með hópfjármögnun. Þau sem vilja kynna sér bókina og styðja við útgáfu hennar geta skoðað verkefnið nánar á Karolina Fund.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa dr. Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir kennarar í þjóðfræði við Háskóla Íslands.