Hvers vegna eru fasteignasalar hættir að horfa út um gluggann fyrir hádegi? Hvað segir húmor okkur um samfélagið? Má gera grín að öllu? Er yfir höfuð hægt að rannsaka húmor?
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Kristinn Schram dósent í þjóðfræði við Háskóla Íslands. Kristinn hefur stundað fjölbreyttar rannsóknir í þjóðfræði en í þættinum segir hann frá rannsóknum sínum á húmor, meðal annars hvernig húmor var notaður í hruninu og nú á tímum heimsfaraldurs. Rannsóknir á húmor gefa forvitnilega innsýn í samfélagið á hverjum tíma. Húmorinn getur allt í senn verið bjargráð og andóf fólks í erfiðum aðstæðum sem það fær lítt við ráðið.
Þá kynnir Kristinn húmorsþing sem haldið verður á Hólmavík með pompi og prakt laugardaginn 27. mars 2021.