Bryndís Björgvinsdóttir er þjóðfræðingur, rithöfundur og dósent við hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Á ferli sínum hefur hún komið víða við í rannsóknum og ritstörfum og hefur hið yfirnáttúrulega verið henni hugleikið.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Bryndísi um rannsóknir hennar á álfum og álfabyggðum en hún segir frá því hvernig hún fékk áhuga á álfum í tengslum við náttúruna og umhverfisvernd. Árið 2018 kom út bók hennar, og Svölu Ragnarsdóttur, Krossgötur – álfatrú, álfabyggðir og bannhelgi á Íslandi. Þar segir frá stöðum þar sem manngert umhverfi hefur lagað sig að álfabyggðum og álagablettum og hvernig hið yfirnáttúrulega og ósýnilega getur þannig birst okkur í umhverfinu. Í þættinum tæpir Bryndís á ýmsu og segir meðal annars frá útvarpsþáttum um Grýlu, Hafnfirðingarbröndurum, sem og sjónvarpsþáttunum Reimleikum þar sem hún miðlaði sögum fólks af dulrænum atburðum og heimsótti staði þar sem sagt er reimt.
Nýjasta útgáfa Bryndísar er bókin Kristín Þorkelsdóttir sem segir sögu Kristínar sem er myndlistarkona en starfaði sem grafískur hönnuður. Kristín rak lengi eina stærstu auglýsingastofu landsins og á hún stóran hlut í hversdagslegri sjónmenningu landsmanna en hún hannaði meðal annars íslensku seðlaröðina og alþekktar umbúðir fyrir mjólkurvörur. Bryndís segir frá útgáfunni og störfum Kristínar.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.
Á myndinni eru frá vinstri Bryndís Björgvinsdóttir, Kristín Þorkelsdóttir og Birna Geirfinnsdóttir, annar höfundur bókarinnar um Kristínu og hönnuður verksins.