Undanfarna áratugi hafa orðið gífurlegar breytingar á aðgengi upplýsinga og gagna af ýmsu tagi. Bylting hefur orðið með internetinu en nú má nálgast ýmis gagnasöfn á stafrænu formi, meðal annars safngögn sem tengjast þjóðfræði. Notkunarmöguleikar slíkra gagnagrunna eru ótrúlega fjölbreyttir og því skiptir miklu máli að til þeirra sé vandað og þeir séu notendavænir.
Trausti Dagsson er þjóðfræðingur og starfar sem verkefnisstjóri og forritari hjá Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Hann vinnur meðal annars að þróun og uppfærslum á gagnasöfnum stofnunarinnar og tekur þátt í miðlun efnisins. Trausti segir meðal annars frá Sagnagrunni þar sem lesa má útdrátt úr íslenskum þjóðsögum og skoða á korti þá staði sem að þær tengjast. Trausti segir einnig frá öðrum gagnasöfnum stofnunarinnar, meðal annars Ísmús þar sem finna má hljóðrit, tónlist, kveðskap, sögur, viðtöl og fleira. Trausti segir frá framtíðarþróun þessara gagnasafna og fyrirhugaðri sameiningu þeirra.
Trausti segir frá norrænu og alþjóðlegu samstarfi um gagnagrunna fyrir þjóðsögur og spennandi samstarfsverkefni um Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista, sem stendur til að verði miðlæg gátt þar sem margir ólíkar gagnagrunnar verða tengdir saman. Trausti hefur ritað þó nokkuð um gagnagrunna og miðlun og mun flytja erindi um efnið á Þjóðarspegli – ráðstefnu um rannsóknir í félagsvísindum sem haldin verður í Háskóla Íslands 29. október næstkomandi.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.