Doktor Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir hefur komið víða við í gegnum tíðina. Lengi vel kenndi hún þjóðfræði í Háskóla Íslands og í ritstörfum sínum hefur hún fengist við þjóðfræðilegt efni. Ólína hefur meðal annars gefið út bækur um galdra, lækningajurtir og nú síðast bókina Ilmreyr. Í þættinum ræðir Dagrún Ósk við Ólínu um þjóðfræði og ritstörfin.
Ólína hefur rannsakað brennuöldina á Íslandi, galdra og galdratrú. Í rannsókninni studdist Ólína bæði við dómsskjöl og þjóðsögur og segir hún frá hvernig þessar ólíku heimildir opinbera áhugaverðan mun á viðhorfi til galdrafólks. Með galdrafárinu varð hugarfarsbreyting sem gerði það að verkum að fólk var brennt fyrir galdra víða í Evrópu, en galdrabrennur á Íslandi eru sérstakar að því leyti að fleiri karlar en konur urðu eldinum að bráð.
Ólína segir einnig frá bók sinni Lífsgrös og leyndir dómar sem byggir á rannsókn hennar á grasalækningahefðum. Á Íslandi er rík alþýðulækningahefð, bæði í fortíð og samtíð en auk þess ræðir Ólína um hlut kvenna í lækningasögunni.
Í nýjastu bók sinni, Ilmreyr, er Ólína á persónulegri nótum. Bókin er kveðja frá dóttur til móður en um leið óður til formæðra og -feðra sem háðu lífsstríð sitt vestur á fjörðum. Þó bókin sé persónuleg er hún ekki síður saga þjóðar og aldarspegill. Í þættinum segir Ólína frá bókinni og æskuminningum sínum að vestan, sögum af björgunarafrekinu við Látrabjarg og röskun á álagabletti.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.