Hvað eiga gamla höfnin í Reykjavík, kombucha, súrdeig og örverur sameiginlegt? Jú, þetta eru allt viðfangsefni sama þjóðfræðingsins.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Áka Guðna Karlsson doktorsnema í þjóðfræði og verkefnisstjóra. Áki segir frá nýlegri rannsókn sinni á gömlu höfninni í Reykjavík. Á undanförnum árum hafa orðið gríðarlegar breytingar og uppbygging á höfninni, allt frá Hörpu tónlistarhúsi og út á Granda. Áki segir frá efnismenningu hafnarinnar, hvernig lesa má breytingar í umhverfinu og hvaða áhrif þær hafa. Þá hafa reglur um mengun, úrgang og öryggi líka breyst. Þar sem áður var tjöru- og fiskilykt má nú finna matarilm frá veitingastöðum. Þannig endurspegla breytingar á höfninni að vissu leyti þær breytingar sem eru að verða í samfélaginu á hverjum tíma.
Áki segir einnig frá nýju þverfaglegu rannsóknarverkefni sem hlaut öndvegisstyrk frá Rannís. Í verkefninu leiða saman hesta sína matvælafræðingar, næringarfræðingar, örverufræðingar, mannfræðingar og þjóðfræðingar. Áki starfar sem fræðilegur verkefnisstjóri en hann segir frá verkefninu og markmiði þess sem er að kortleggja sambýli fólks og örvera. Þáttur þjóðfræðinga í verkefninu snýr meðal annars að matarháttum og samstarfi manna og örvera til dæmis við skyrgerð, súrdeigsbakstur, kombuchagerð og fleira. Um er að ræða afar forvitnilegt verkefni sem verður áhugavert að fylgjast með í framtíðinni.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.