Aðalheiður Guðmundsdóttir er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Áður var Aðalheiður dósent við þjóðfræðideild HÍ og kenndi meðal annars kúrsa um ævintýri, galdra og þjóðsagnafræði.
Í þættinum ræða Dagrún og Vilhelmína við Aðalheiði um rannsóknir hennar á miðaldabókmenntum og fornaldasögum. Aðalheiður hefur rannsakað hvernig fornaldasagnahefðin birtist í Evrópu og ákveðnar sögur eða sögubrot sjást til dæmis á mynd- og rúnasteinum, í kvæðum, kirkjulist, sagnadönsum og veggteppum. Þessar sögur, sem byggja á sameiginlegri sagnahefð, verða svo að bókmenntum hér á Íslandi.
Aðalheiður segir einnig frá því hvernig hún hefur rannsakað þjóðfræðiefni í miðaldabókmenntum, meðal annars minnið um vondu stjúpuna, galdra og álög. Þá segir hún frá varúlfum, eða hamskiptaminninu sem er sívinsælt jafnt meðal lesenda og fræðifólks. Í íslenskum miðaldabókmenntum má finna þó nokkrar sögur af varúlfum, sem eru yfirleitt karlkyns, og segja þá frá dýrinu innra með okkur sem brýst út við sérstakar aðstæður.
Nú á næstunni eru væntanlegar þrjár bækur sem Aðalheiður hefur unnið að. Þetta eru tvö fyrstu bindin í ritröðinni Arfur aldanna, þar sem fjallað er um fornaldasögurnar. Að auki er væntanlegt ritið Íslenskar bókmenntir: Saga og samhengi. Aðalheiður bendir á að mikilvægt sé að hampa ekki ákveðnum þáttum bókmenntasögunnar á kostnað annarra og að hver kynslóð verði að fá að uppgötva arfinn upp á eigin spýtur. Aðalheiður ræðir einnig hvernig dægurmenning og kvikmyndir sækja innblástur sagnaarfinn og miðaldabókmenntir.
Þjóðhættir er hlaðvarp sem fjallar um nýjar rannsóknir og fjölbreytta miðlun í þjóðfræði. Umsjón hafa Dagrún Ósk Jónsdóttir og Vilhelmína Jónsdóttir doktorsnemar í þjóðfræði.